1. EVE Online - Trinity
Gisli KonradssonFyrsti leikurinn minn: EVE Online og Trinity (2007)
Ég man augnablikið þegar ég áttaði mig á því að þetta væri orðið alvara. Ég var mættur í vinnu til að vinna við heim sem ég hafði áður aðeins heimsótt á kvöldin, eftir skóla og vinnu. Nú var hann orðinn vinnustaður og ég var að vinna við tölvuleik!
Þetta var árið var 2007 og fyrsti leikurinn sem ég vann við var EVE Online. Þetta var á tímum þegar Trinity-útgáfunnar kom út. Þá vargrafíkin var endurbyggð frá grunni og EVE varð skarpari, kaldari og ógnandi fallegur. Ótrúlega stór uppfærsla á heimi leik og heimi sem mörgum þótti mjög vænt um. Ég var lítill hluti af stóru teymi, en tilfinningin var sú að vera kominn inn fyrir varnargarðana.
Til að komast inn sótti ég um allt sem ég mátti. Allt sem krafðist ekki formlegrar menntunar. Það voru tvær leiðir raunhæfar: gæðastjórnun (Quality Assurance) og þjónustufulltrúi, eða Game Master.
QA sagði nei, sem var svolítið högg.
Ein spurningin sem ég fékk í viðtalinu var hvernig mér litist á leturbreytingarnar í síðustu uppfærslu. Ég svaraði: „bara flott“. Þá var mér sagt að engar breytingar hefðu verið gerðar. Löng þögn fylgdi í kjölfarið og svo held ég að viðtalið hafi einfaldlega klárast.
Ég veit ekki hvort þetta gerði útslagið, en ég man mjög vel eftir þessu eftir öll þessi ár.
Nokkrum vikum seinna fékk ég boð um prufustöðu sem þjónustufulltrúi. Þetta var ekki draumastaðan, en hún var innan kerfisins. Það skipti meira máli en ég gerði mér grein fyrir á þeim tíma.
Fyrsta starfið: Þjónustufulltrúi
Dagarnir fóru í að svara fyrirspurnum frá spilurum. Mál sem snerust um tap, árekstra og réttlæti. Stundum var orsökin galli í leiknum. Stundum svindl. Stundum einfaldlega slæmar ákvarðanir sem höfðu afleiðingar, og þar gat ég ekkert gert.
Algengasta setningin í pósthólfinu var:
„I Lost my Navy Raven“.
Þessi Raven-skip, sem voru mjög verðmæt, voru mest notuð í level 4 missions, oft töpuðust þau við aðstæður sem eigendur þeirra töldu ósanngjarnar. Ég fór í gegnum logga, reglur og fyrri fordæmi og reyndi að meta hvað væri sanngjarnt. Í sumum tilfellum var skipið endurgreitt. Í öðrum ekki.
Ég tók starfið alveg óskaplega alvarlega. Eiginlega allt of alvarlega.
Ein hlægilegasta aðstaðan var þegar leikmaður hafði samband og sagði að hann hefði verið að spila með ungan son sinn í kjöltunni. Ég neitaði honum um skipið sitt og bannaði hann í 24 klukkustundir fyrir að deila aðgangi með öðrum. Reglurnar voru skýrar og ég fylgdi þeim bókstaflega.
Flóknari málin fóru til reyndari "senior" þjónustufulltrúa. Þar komu inn samfélagsátök, greiðslumál og langvinn deilumál sem höfðu safnast upp í kerfinu. Ég fylgdist með, hlustaði, en sá mig aldrei fara neitt sérstaklega langt sem þjónustufulltrúi.
Vandamál með kommu
Ein næturvakt situr sérstaklega eftir.
Ég fékk mál á borð til mín þar sem POS, Player Operated Station, var biluð og þurfti inngrip. Lausnin var að nota þjónustufulltrúaverkfærin og setja orku stöðvarinnar í fimmtíu prósent. Ég fékk aðgang að skipanalínu sem ég hafði ekki notað oft áður og sló inn skipun með tugabroti.
Kerfið las skipunina öðruvísi en ég ætlaðist til. Þ.e.a.s þessi komma í lokinn var ekki túlkuð sem 0.5 heldur sem núll...
Orkan fór í núll og stöðin sprakk.
Við flugum um á því sem kallað var Polaris-geimskipið. Það var sérstakt ofurskip sem leyfði okkur að fljúga ósýnileg um á miklum hraða. Það var óskrifuð regla að afhjúpa okkur þegar við gripum inn í aðstæður þar sem tvær fylkingar voru í biðstöðu á meðan leikurinn var lagaður. Eins og dómari sem gengur inn á völlinn í fótbolta
Ég eyddi restinni af næturvaktinni í að rekja hvað hafði gerst. Dagurinn fór í að laga afleiðingarnar, svara póstum og reyna að halda ró minni á meðan ég útskýrði mistök sem ekki var hægt að taka til baka. Ég var ekki með nein tól (né þekkingu) til að laga þetta, þannig að ég þurfti að reyna að semja einhvernveginn við spilaranna sem áttu í hlut
Auðvitað birtist líka stór þráður á spjallborðinu um hvernig þjónustufulltrúi hefði svindlað.
Að klóra í næsta skref
Þrátt fyrir að ég væri að læra mikið í þjónustunni, vissi ég að ég vildi eitthvað annað. Mig langaði að vera þeim megin borðsins sem byggði kerfin, ekki bara lagaði þau þegar þau brustu.
Ég byrjaði að vinna að portfolio. Smá verkefni, tilraunir og æfingar sem ég gerði utan vinnutíma. Ég vildi vera tilbúinn þegar tækifærið kæmi. Ég las mikið af innri skjölun sem var í boði og ákvað að sérhæfa mig í geimstöðvahönnun. Ég valdi Minmatar-þjóðflokkinn og liststílinn þeirra, hráan, beinan og eins og hann væri skrúfaður saman úr því sem var til.
Íbúðin sem ég hannaði varð á endanum til þess að ég fékk tækifæri sem þrívíddarlistsmaður.